Í lok júlí fór okkar fólk, Heiða Lára og Pétur Már til Tékklands að keppa ásamt tveimur öðrum íslenskum keppendum, en það voru þau Kristján Arnarson og Rosa Millán frá Skotíþróttafélagi Norðurlands. Að morgni 28. júlí hélt íslenski hópurinn af stað til Tékklands, flogið var með Icelandair til Prag. Hér má lesa ferðasöguna í frásögn Heiðu Láru:
Vel gekk að fá byssurnar afgreiddar á flugvellinum í Prag, komu þær í afgreiðslu “öðruvísi farangurs” og fór einn aðili inn í gegnum öryggishlið í einu til að gera grein fyrir byssunum og hve margar kúlur við værum með. Við biðum aðeins eftir að lögregluþjónar mættu til að afgreiða okkur, en það gekk allt fljótt og vel fyrir sig.
Eftir að hópurinn hafði fengið bílaleigubílana sína afhenta var haldið áleiðis til Pilzen þar sem keppnin fór fram. Kristján og Rosa fóru beint á Pilsen á hótel, en við Pétur Már gistum á leiðinni.
29. júlí
Það átti að vera öryggisfundur fyrir þá keppendur sem skráðir voru í Air rifle Unlimited og Rimfire. En þegar keppendur mættu á svæðið kom í ljós að tafir höfðu verið á Air rifle 25m keppnunum og úrslit og verðlaunaafhending fyrir HV flokkinn höfðu einnig tafist og því var ákveðið að halda öryggisfundinn eftir Air rifle Unlimited æfinguna þann 30. júlí.
Þar sem það spáði hellirigningu bæði æfingardaginn og daginn sem keppnin í sporterflokki átti að vera var ákveðið að keppendur myndu fá tíma þegar búið væri að skjóta og áður en gengið yrði frá rifflunum til snögg hreinsa þá. Þar sem aðstaðan til að hreinsa var í nokkurru fjarlægð frá keppnissvæðinu og ekki innangengt var samþykkt að leyfa hreinsun í 2 mínútur á borðinu fyrir þá sem vildu. Aðal öryggisreglan var sú að bannað var að eiga við riffilinn inni á keppnissvæðinu, nema leyfi hefði verið gefið fyrir því. Ef riffill var snertur eða hreyfður án leyfis var það tafarlaus brottrekstur af keppnissvæðinu þann daginn.
Eftir öryggisfundinn kom smá hlé en svo var WRABF með sinn fulltrúafund. Þann fund sat ég (Heiða Lára) sem fulltrúi Íslands en ég var líka í forsvari fyrir hópinum okkar. Þar voru ýmis mál tekin fyrir og ný stjórn var kosin. Helstu breytingar sem samþykktar voru eru að:
Sjónaukastækun í Sporterflokki má nú vera allt að 12x
Tvífætur voru leyfðir, en eftir er að útfæra nákvæmlega hvernig.
Orðið “Varmint” var tekið út og nú heita flokkarnir "Light rifle" og "Heavy rifle", air eða rimfire.
Air rifle hlutinn er nú sér, þannig að hægt er að halda aðeins annað mótið í einu.
Næsta mót verður haldið í Finnlandi árið 2025.
1.ágúst - Æfingardagur fyrri rimfire keppnirnar
Íslenska hópnum var úthlutað fyrsta borðið til æfinga og hvert æfingaholl var 20 mínútur. Kristján og Rosa fengu borðið fyrst, en þegar 2 holl voru eftir sáum við að borðið við hliðina á okkar var autt og fengum við því að nota það líka. Einnig voru rifflarnir skoðaðir og vigtaðir þennan dag og merktir fyrir viðeigandi flokk. Völlurinn var nokkuð krefjandi og tók nokkurn tíma að læra á vindinn, þar sem veggir koma á milli og bitar yfir brautinni, skoppaði því vindurinn milli veggja. Þegar æfingunum var lokið var fundur hjá ERABSF. Var mér (Heiðu Láru) boðið að sitja fundinn sem áheyrnarfulltrúi, þar sem Ísland hefur ekki greitt félagsgjaldið.
2.ágúst - fyrsti keppnisdagur hjá okkur - sporterflokkur
Tímaplanið gekk vel, en smá bið var eftir að sjá úrslit eftir hvern riðil. En allt koma það að lokum. Ég lagði fram eina kæru vegna úrlestrar, Rosu vantaði x og var það tekið fyrir og samþykkt. Þegar úrslit lágu fyrir var niðurstaðan hjá hópnum þessi á heimslistanum:
Arnar 16. sæti, Rosa 46. sæti, Aðalheiður 77. sæti og Pétur Már 78. sæti.
3. ágúst 2. keppnisdagur hjá okkur - LV flokkur
Gekk það svipað eins og Sporter flokkurinn, en þegar öll spjöld höfðu verið hengd upp kom í ljós að það vantaði spjöld, þau höfðu orðið eftir úti á vell. Það lengdi því aðeins daginn. Tvær skífur hjá Rosu voru ranglega merktar en þær fengust leiðréttar. Kristján tók að sér gæslu á keppnissvæðinu á milli þess sem hann keppti. Fórst honum það vel úr hendi og var þakkað vel fyrir. Þegar úrslit lágu fyrir var niðurstaðan fyrir hópin þessi:
Arnar 76. sæti, Rosa 89. sæti, Aðalheiður 90. sæti og Pétur Már 101. sæti.
4. ágúst - lokadagurinn - keppni í HV flokki
Hann gekk eins og fyrri dagar en að lokinni keppni og kærufresti, var haldið á Parkhotel þar sem lokahófið fór fram. Komu þar faman þeir keppendur sem eftir voru á svæðinu. Þar fór loka verðlauna afhendingin fram. Einnig var þeim sem náðu að skora 250 stig í fyrsta sinn á stórmóti veittar sérstakar nælur. Pétur Már náði því á fyrsta blaðinu í HV flokki. Einnig voru allir þeir sem lögðu hönd á plóg við að láta mótið ganga upp kallaðir upp á svið og þeim þakkað sérstaklega, Kristján var okkar fulltrúi þar.
Þegar úrslit lágu fyrir var niðurstaðan fyrir hópin þessi:
Arnar 48. sæti, Rosa 78. sæti, Aðalheiður 83. sæti og Pétur Már 93. sæti.
Í heildina gekk mótið vel en aðeins vegna þeirra keppenda og gesta sem tóku þátt í að gera það mögulegt. Þar sem mótinu hafði verið frestað um 2 ár vegna Covid-19, voru þær forsendur sem fyrir lágu 2019 þegar Tékkland fékk mótið, ekki lengur til staðar. Keppendur og makar frá Bretlandi og Ástralíu aðstoðuðu við að koma upp brautum fyrir Air rifle keppnirnar, auk þess að aðstoða við vallargæslu, úrlestur, og allt annað sem til féll.
Tafirnar sem urðu í Air rifle keppnunum voru vegna þess að í upphafi átti að nota tölvutækni til að lesa úr keppnisskífum, en það varð mjög tímafrekt og því endaði það að lesið var úr handvirkt. Í Air rifle Unlimited var byrjað með tölvulestur en fljótlega var því hætt vegna tímans sem það tók. Rimfire keppnirnar voru allar lesnar handvirkt, því tók það styttri tíma að birta þær, þó okkur þætti það taka full langan tíma, en það var bara óþolinmæðin í okkur.
Það sem eftir situr er frábær reynsla og svo allt fólkið sem við hittum og kynntumst, tengsl sem voru endurnýjuð eða ný sem mynduðust. Enn sannaðist það að fólk í skotíþróttum stendur saman og hjálpast að.
Annað frá ferðinni
3 keppendur frá Finnlandi auglýstu eftir aðstoð vegna þess að riffilboltarnir þeirra urðu eftir í Finnlandi. Svo heppilega vildi til að boltinn úr HV rifflinum hans Péturs passaði í riffilinn sem þau nota í Sporterflokknum og því gátu þau notað riffilinn sinn í keppninni. Þau fengu svo 2 bolta lánaða hjá öðrum keppendum í LV og HV keppnunum.
Keppendur frá Líbanon nota aðeins tvífætur í keppni heimafyrir, en fengu lánuð rest til að nota í keppninni í Tékklandi.
Keppendur frá Íran fengu ekki að fara með rifflana sína úr landi, en gátu keppt með lánsrifflum. Finnar og Tékkar lánuðu þeim riffla.
Við hlökkum til að hitta aftur þessa frábæru fjölskyldu sem BR keppendur eru og erum strax farin að horfa til Finnlands 2025.
Eftir að móti lauk ferðuðumst við um Tékkland, er það fallegt land með góðu og gestrisnu fólki.
Komum svo heim þann 8. ágúst.
Comments